Um okkur
12 spora samtök með aðstöðu í 12 Spora húsinu eru:
- AA Alcoholics Anonymus
- Alanon Aðstandendur alkóhólista
- Alateen Börn/unglingar alkóhólista
- Anorxa Anorexics Anonymous
- CODA Co-dependence Anonymous (meðvirkir)
- DA Debtors Anonymous (fjármála/skuldavandræði)
- EDA Eating Disorders Anonymous
- OA Overeaters Anonymous
- GA Gamblers Anonymous (spilafíklar)
- GrShA Grey-sheeters Anonymous (átröskun)
- NA Narcotis Anonymous
- MA Marijuana Anonymous
Saga félagsins og starfsemi
Sagan
Alanó klúbburinn er líknarfélag sem rekur húsnæði til útleigu fyrir 12 spora samtök á Íslandi undir nafninu 12 Sporahúsið. Félagið var stofnað árið 2000 og er nú til húsa að Holtagörðum, Holtavegi 10 í Reykjavík. Markmið félagsins er að efla 12 spora starf með því að reka húsnæði með fundaaðstöðu fyrir 12 spora samtök ásamt félagsmiðstöð. Starfsemin er fjármögnuð með leigutekjum af fundasölum, félagsgjöldum meðlima og með ýmsum fjáröflunar viðburðum.
Alanó klúbburinn er stofnaður að erlendri fyrirmynd en fyrirkomulagið er vel þekkt víða um heim, sérstaklega þó í Bandaríkjunum. Allt frá stofnun hefur félagið unnið ötullega að því að tryggja 12 spora samtökum fundaaðstöðu og klúbburinn er í dag sannkölluð lífæð 12 spora starfs á Íslandi. Öll starfsemi félagsins er í höndum sjálfboðaliða utan starf húsvarðar sem hefur verið í hálfu starfi.
Í núverandi húsnæði klúbbsins við Holtaveg í Reykjavík eru á dagskrá um 55 fundir í hverri viku (undir eðlilegum kringumstæðum án Kóvid) á vegum 15 mismunandi 12 spora samtaka, að mestu AA-fundir eða alls 36 en aðrir fundir eru á vegum ýmissa annarra 12 spora samtaka. Á hverjum degi má ætla að það mæti 350 til 500 manns á 12 spora fundi í húsinu. Margar þessara deilda sjá einnig um að fara með AA-fundi og aðra 12 spora fundi á sjúkrahús, meðferðarstöðvar og í fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess og má ætla að hvern dag vikunnar séu fundir á alla vega fjórum til fimm þessara stofnana mannaðir af deildum með aðstöðu í 12 Spora húsinu. Skráðir félagar sem greiða stuðningsgjald til klúbbsins eru um 400-500 og greiða flestir lágmarksgjald sem er 1.000 krónur á mánuði.
Í 12 Spora húsinu er einnig til staðar öflugt félagsstarf og það eru haldin skemmtikvöld í kringum alls lags viðburði svo sem Hrekkjavöku, Júróvisjón og fleira. Aðstaðan er einnig opin fyrir EM og HM í knattspyrnu þegar þau mót eru í gangi, en 12 Spora húsið er eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem áhugafólk um knattspyrnu getur horft á alla þessa leiki í rólegu og þægilegu umhverfi þar sem ekki er verið að reyna að selja því áfengi. Einnig eru reglulega í gangi bingókvöld í fjáröflunarskyni fyrir klúbbinn, jólahlaðborð er í byrjun desember ár hvert, áramótagleði er á gamlárskvöld og árshátíð klúbbsins er haldin á afmæli hans í janúarmánuði. Félagið „Gaman saman“ var líka stofnað sem undirdeild í Alanó til að sjá um edrú-útihátíðir um Verslunarmannahelgina og hefur haldið nokkrar slíkar sem heppnuðust vel.
Um jól og áramót er húsið opið allan daginn og fram á kvöld og fundir þar falla aldrei niður, en einnig eru haldnir svo kallaðir auka-miðnæturfundir (frá hálf-tólf til hálf-eitt) á Þorláksmessu, aðfangadagskvöld, annan í jólum, þriðja í jólum, gamlárskvöld og nýársdagskvöld. Um síðastliðin jól og áramót voru að jafnaði 60 til 90 manns á þessum auka-miðnæturfundum. Á Gamlárskvöld var áramótagleði sem hófst með opnun hússins klukkan 21 þar sem tugir manns komu saman og horfðu á áramótaskaupið. Síðan var skotið upp flugeldum og vel á annað hundrað manns dönsuðu svo og skemmtu sér langt fram á nótt.
Margar deildir með aðstöðu í 12 Spora húsinu hafa einnig sjálfstætt félagsstarf og fara út á land í helgarferðir sem eru oftar en ekki kynjaskiptar, en alls eru 18 kynjaskiptar deildir í húsinu, 12 karladeildir og 6 kvennadeildir.
Vertu með, þetta er gaman!
Lög félagsins
1.gr. Félagið heitir Alanó klúbburinn, líknarfélag.
2. gr. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
3. gr. Tilgangur félagsins er að efla 12 spora starf í landinu.
4. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að reka félagsmiðstöð þar sem 12 spora félög geta leigt aðstöðu fyrir fundi sína og aðra 12 spora starfsemi. Alanó heldur utan um rekstur húsnæðisins og vefsíðu félagsins.
5. gr. Stjórn félagsins ákveður árgjald félagsins og innheimtu. Félagið er opið öllu áhugafólki um 12 spora starf. Félagsmenn teljast þeir sem standa skil á félagsgjöldum og öðlast þannig kjörgengi og kosningarétt á aðalfundi félagsins
6.gr. Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum. Stjórnarmenn skulu kosnir til þriggja ára í senn. Eigi skal kostið um fleiri en þrjá í stjórn, nema þörf krefji. Einnig er heimilt að kjósa allt að 5 varamenn til eins árs í senn á aðalfundi félagsins. Ef stjórnarmeðlimur hverfur frá störfum á kjörtímabilinu tekur fyrsti varamaður sæti í stjórn í hans stað. Stjórn er heimilt að skipa nýjan varamann milli aðalfunda ef varamaður tekur sæti í stjórn eða hættir á kjörtímabilinu.
7. gr. Stjórnin kýs sér sjálf formann, gjaldkera, ritara og skiptir með sér verkum að öðru leyti. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með takmörkunum sem samþykktir þessar setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum félagsins. Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti með 7 daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst 3 stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
8. gr. Firmaritun félagsins er í höndum: stjórnarformanns og gjaldkera. Daglega umsjón félagsins annast starfsmenn ásamt gjaldkera.
9. gr. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi ef búið er að greiða árgjald félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn í aprílmánuði ár hvert. Stjórn boðar til aðalfundar með auglýsingum innanhúss og eða á 12sporahusid.is, með þriggja vikna fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar:
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar félagsins
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Kjör í laus störf stjórnar
- Önnur mál
10. gr. Félagið er fjármagnað með árgjaldi frá félagsmönnum, leigutekjum 12 spora deilda í húsnæði félagsins sem og styrkjum frá fyrirtækjum, einstaklingum og opinberum aðilum.
11. gr. Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í viðhald á húsnæði, uppbyggingu og kynningu á starfsemi félagsins.
12. gr. Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögum til breytinga skal skila 7 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn í fundarboði geta þess ef breytingartillaga á samþykktum þessum hefur komið fram. Nái breytingartillaga samþykki 2/3 fundarmanna telst hún samþykkt. Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (tveir/þriðju). Eignir þess skulu renna til félaga/samtaka er starfa í svipuðum tilgangi skv. ákvörðun aðalfundar.
13.gr. Stjórn félagsins ræður starfsmann og samþykkir starfsáætlun. Starfsmaður ásamt gjaldkera ráða aðra starfsmenn.
14. gr. Dagleg fjársýsla er í höndum gjaldkera félagsins en öll stærri fjárútlát skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar. Gjaldkeri félagsins sér til þess að allt sé rétt fært og bókað.
Lög þessi voru samþykkt 28.sept 2016.